Félagið

Félagið stendur fyrir og stuðlar að samveru félagsmanna, stendur fyrir og veitir fræðslu um Downs heilkennið og um hagsmunamál félagsins.

Félagið sinnir réttindagæslu og gæti hagsmuna einstaklinga með Downs heilkenni á opinberum vettvangi og með beinum hætti þegar við á.

Aðdraganda að stofnun félagsins má rekja til haustsins 1993, en þá var í fyrsta sinn boðað til fundar foreldra barna með Downs heilkenni. Þörfin var greinilega fyrir hendi og hittust foreldra og aðstandendur einstaklinga með Downs heilkenni sem og einstaklingarnir sjálfir reglulega í nokkur ár.

Það var svo hinn 17. apríl 1997 sem haldinn var stofnfundur félagsins. Félagið fékk heitið, Félag áhugafólks um Downs heilkennið. Sú nafngift var ekki tilviljun, því vilji stofnenda félagsins var að fá inn í félagið fleiri aðila en foreldra, s.s. aðstandendur, fagfólk og sem mikilvægast er, einstaklinga með Downs heilkenni.

Það markmið hefur náðst og eru félagsmenn fjölbreyttur hópur fólks með mismundi tengingu við Downs heilkennið, en eiga það allir sameiginlegt að vilja leggja einstaklingum með Downs heilkenni og baráttumálum félagsins lið.