Alþjóðadagur Downs heilkennis 21. mars 2024
Í ár ætlum við að, “SAMEINAST Í SOKKUNUM” og þannig fagna fjölbreytileikanum á táknrænan hátt. Listamennirnir Arna Dís Ólafsdóttir & Lóaboratorium (Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir) hafa í sameingu hannað ósamstætt sokkapar í tilefni af Alþjóðlega Downs deginum.
Í ár eru “sokkarnir” prentaðir á bolla, á töskur og á boli. Einnig voru útbúin tattú með sokkunum.
Þú getur hitt á okkur í Kringlunni helgina 15. og 16. mars og keypt bolla eða tösku. Þann 21. mars verður okkar fólki á Glerártorgi og þá verður hægt þar að kaupa bolla og töskur á Akureyri.
Sameinumst í sokkunum og sköpum enn betra samfélag með einstaklingum með Downs heilkenni.
Á alþjóðadegi Downs heilkennis göngum við um í ósamstæðum og litskrúðugum sokkum til að draga fram fjölbreytileikann og til að minna á mikilvægi hans í samfélaginu.
Dagsetningin er táknræn, hún vísar til þess að Downs heilkennið er orsakað af auka litning í litningapari 21, það eru þrjú eintök af litning 21 - 21.03.
Orð forseta Íslands í viðtali í tilefni af alþjóðadeginum árið 2023 eru mikilvæg;
„Það má aldrei verða svo að skilaboð til foreldra sé á þá leið að einstaklingur með Downs-heilkenni eigi ekki bjart líf fyrir höndum, því sú er alls ekki raunin.“
Sameinuðu þjóðirnar lýstu því formlega yfir árið 2011 að Downs heilkenni væri erfðabreytileiki sem fylgt hefur mannkyninu frá upphafi og að 21. mars væri Alþjóðadagur Downs heilkennis.
Einstaklingar með Downs heilkenni eiga að hafa sama rétt til lífsgæða og samfélagsþátttöku og aðrir landsmenn. Við viljum að rödd okkar fái að hljóma í samfélagi sem er inngildandi, ekki aðgreinandi.
Fögnum fjölbreytileikanum með gleði og því að vera í ósamstæðum sokkum. Í sameiningu getum við skapað inngildandi samfélag, samfélag án aðgreiningar.
Þetta einstaka sokkapar verður til sölu í verslunum Hagkaupa sem og á heimasíðu Varma í mars og til og með 21.3.