Tilvera þeirra gefur lífinu lit

skrifað 16. mar 2014
Mynd_1508821

Grein sem birtist í Skessuhorni í tilefni af alþjóðadegi einstaklinga með Downs heilkenni.

Tilvera þeirra gefur lífinu lit Systurnar Íris Petra og Ásta Sóley Jónsdætur skrifuðu athyglisverða pennagrein í nýjasta tölublað Skessuhorns sem kemur út í dag. Grein þeirra nefnist „Tilvera þeirra gefur lífinu lit“ en í henni ræða þær um fordóma gagnvart fólki með Downs heilkenni og bróður sinn sem fæddist með slíkt heilkenni. Tilefnið er alþjóðadagur Downs heilkennis sem fram fer föstudaginn 21. mars næstkomandi. Grein þeirra birtist hér að neðan: Þann 21. mars verður alþjóðlegur dagur Downs heilkennis. Af því tilefni langar okkur systrum að skrifa um hvernig það er að eiga bróðir með Downs heilkenni. Það sem er erfiðast við að eiga bróðir með Downs er þegar krakkar eru að nota orðin „þroskaheftur“ eða „fatlað“ sem eitthvað ljótt og niðrandi. Okkur þykir bróðir okkar flottur eins og hann er og það er ekkert ljótt við það að vera þroskaheftur. Það þurfa ekki allir að vera eins. Ef allir væru eins væri eins væri heimurinn fátæklegur.

Í dag er fólki með Downs heilkenni útrýmt því það er hægt að leita það uppi með fósturskimunum. Það finnst okkur sorglegt, því tilvera þeirra gefur lífinu lit. Bróðir okkar hefur kennt okkur mikið um lífið og við erum heppnar að eiga hann sem bróður. Okkur er sko engin vorkunn. Kæra fólk, viljið þið hugsa ykkur um áður en þið notið orð eins og „þroskaheftur“ og „fatlað“ í neikvæðri merkingu og gerið grín að þeim sem eru fatlaðir eða þroskaheftir. Okkur líður illa þegar það er gert.

Ásta Sóley og Íris Petra Jónsdætur.