Birgir Reimar
Það var snemma morguns þann 25. mars 1998. Já, ég man að það var sá dagur sem við vissum ekki hvort að við ættum að vera glöð eða sorgmædd.
Við vorum búin að eignast 4. barnið okkar, dreng, 3040 gröm og 49 cm sem var nú töluvert minna en systkinin hans voru, þegar þau fæddust. Okkur fannst hann vera mjög lítill og krumpinn en annars sáum við ekkert að honum nema að hann hafði tvo fingur samvaxna á báðum höndum. Við hugsuðum með okkur að það væri nú örugglega hægt að laga.
En annað kom nú í ljós. Nokkrum klukkutímum seinna var kallað á okkur og okkur var sagt að hann væri með Downs-heilkenni. "Ha, hvað er nú það," sagði ég. Ég vissi ekki meira en það. Svo sagði læknirinn að hann væri mongólíti og örugglega með hjartagalla.
Þá settist ég bara niður og vissi ekki hvernig ég ætti að bregðast við. En sem betur fór vorum við fljót að komast yfir það, eða það má segja að ég hafi komist yfir það daginn eftir þegar hann fór í hjartasónarinn og það kom í ljós að hann var með lítið gat í hjartanu sem myndi örugglega eldast af honum. Það gerði það líka og eftir 6 mánuði var gatið gróið saman.
Birgir Reimar tók brjóst og var ágætlega duglegur svo að læknirinn sagði að við mættum fara heim ef við vildum. Við fórum heim á þriðja degi. Það var skrítið að koma heim með Birgi, halda að maður sé í æfingu með fjórða barnið á átta árum en vita svo ekki hvað við vorum með í höndunum.
Við héldum að við værum ein í heiminum en svo var alls ekki! Við kynntumst fullt af fólki sem eiga börn með Downs-heilkenni og það er alveg meiriháttar að deila gleði og áhyggjum með fólki sem að skilur hvað við erum að tala um þegar við erum að tala um strákinn okkar.
Fyrsta árið hjá Birgi gekk bara nokkuð vel en það fór hægt af stað. Hann fékk gulu,varð latur að drekka og vildi bara sofa, en honum var ekkert gefið eftir með það. Hann var í sjúkraþjálfun tvisvar í viku og í þroskaþjálfun á Greiningarstöðinni einu sinni í viku.
Margrét Rut - Jóhann Rafn - Kristján Róbert - Birgir Reimar
Í júlí 1999 þegar Birgir Reimar var 16 mánaða fluttist fjölskyldan til Danmerkur. Pabbi hans fór í nám og tvö elstu börnin í skóla en sá næst yngsti í leikskóla. Fyrir Birgi var ekki mikið í boði. Til að byrja með fengum við sjúkraþjálfun fyrir hann tvisvar í viku en enga þroskaþjálfun var að fá.
Við sóttum því um á leikskóla fyrir hann og fengum boð um að setja hann á leikskóla fyrir fötluð börn. Okkur þótti Birgir vera það duglegur að með stuðningi gæti hann vel verið innan um ófötluð börn á leikskóla en það var ekki í boði. Birgir varð því bara að vera heima hjá mömmu sinni og var tíminn meðal annars notaður til að æfa tákn með tali.
Birgir var tveggja og hálfs árs þegar hann fór að ganga og þá hætti hann í sjúkraþjálfun. Það var svo í febrúar 2001 að Birgir fór í uppskurð á fingrunum og þeir skildir í sundur. Vinstri hendin var tekin fyrst og var það töluverð aðgerð með 5 tíma svæfingu. Aðgerðin gekk vel og var samskonar aðgerð gerð á hægri hendinni í maí sama ár.
Eftir aðgerðirnar fannst okkur tími til komin að Birgir færi inn á leikskóla. Við sóttum því aftur um en þrátt fyrir að hann færi í þroskapróf og kæmi vel út úr því, vildu "þeir" ekki gefa sig svo að við gáfum okkur. Birgir var orðin leiður að hanga heima hjá mömmu sinni og því ákváðum við að prófa.
Birgir Reimar í afmæli þann 22.08.2002
Birgir var orðinn þriggja og hálfs árs þegar hann byrjaði á leikskóla fyrir fötluð börn. Hann byrjaði á leikskólanum 6. ágúst og ég var mjög stolt af honum þegar að hann gerði sig skiljanlegan með sínum táknum og skildi fóstrurnar þegar þær táknuðu. Táknin var hann bara búinn að læra af okkur heima, en íslensk tákn og dönsk tákn eru ekki eins.
Nú er Birgir búin að vera í leikskólanum í 1 ár og er rosalega duglegur. Hann táknar bæði íslensku og dönsku og talar orðið aðeins, bæði á íslensku og dönsku. Það má því segja að hann sé að læra fjögur mál, tvö tungumál og tvennskonar táknmál.
Við erum ánægð á meðan hann sýnir framfarir sem hann gerir með því að læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Svo það er nú aldeilis hægt að kenna þessum börnum, hann kann þetta allt og er bara 4 ára, rosalega flottur mongo eins og við segjum við hann.
Framtíð Birgis Reimars lítum við björtum augum, þar sem þessi fjögur ár hafa gengið vel og við höfum lært svo mikið af honum og af lífinu sjálfu. Annars hugsum við ekki langt fram í tímann, reynum bara að njóta lífsins eins og það er, með börnunum okkar.
Við vitum að það eiga eftir að koma góðir tímar og erfiðir tímar. Vonandi getum við unnið úr þeim saman og reynt að gera allt sem við höldum að sé best fyrir Birgi Reimar. Lífið heldur áfram.
Jóhanna Birgisdóttir Rafn Kristjánsson Margrét Rut Jóhann Rafn Kristján Róbert Birgir Reimar